Valitor þarf að opna greiðslugáttina

Hlekkur inni á vefsvæði DataCell. Þar segir að ýta megi …
Hlekkur inni á vefsvæði DataCell. Þar segir að ýta megi á hnappinn til að styðja sannleikann. Mynd/DataCell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Valitor verði að opna greiðslugátt DataCell innan fjórtán daga. Um er að ræða gátt sem notuð var til að safna fjárframlögum fyrir WikiLeaks. DataCell höfaði málið á hendur Valitor þar sem fyrirtækið lokaði greiðslugáttinni nokkrum klukkustundum eftir að hún var opnuð og rifti samningi sem gerður var við fyrirtækið.

Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá starfsmanni Valitor að DataCell hafi óskað eftir færsluhirðingaþjónustu og starfsemi fyrirtækisins tilgreind í umsókn sem tækniþjónusta og gagnahýsing. Á þeim grundvelli hafi félagið verið metið og samningur gerður í kjölfarið.

Hins vegar hafi ekki verið greint frá því í umsókninni að til stæði að innheimta fjárframlög fyrir þriðja aðila. Þegar það hefði komið í ljós hefði samningnum verið rift. „Það var á þeim grundvelli að starfsemin færi gegn viðskiptaskilmálum Valitor. [...] Meðal annars að söluaðila er óleyfilegt að taka við greiðslum fyrir þriðja aðila,“ sagði framkvæmdastjóri áhættustýringar Valitor við aðalmeðferðina.

Forstjóri DataCell hélt því hins vegar fram að Valitor hafi allan tímann vitað um fyrirætlan fyrirtækisins og í raun hefði ekki getað dulist hún. Það hafi hins vegar verið fyrir þrýsting frá alþjóðlegu greiðslukortasamsteypunum sem samningnum hafi verið rift. Og sú ákvörðun hafi verið ólögmæt.

Héraðsdómur hefur nú komist að sinni niðurstöðu en vænta má þess að Hæstiréttur eigi síðasta orðið í þessari deilu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert