Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað konu af ákæru um að hafa dregið sér rúmar 50 milljónir króna í starfi sínu við einkabankaþjónustu á eignastýringarsviði Kaupþings banka. Málið var kært til lögreglu árið 2009 af skilanefnd bankans.
Í niðurstöðu dómsins segir að eins og málið sé lagt upp af hálfu ákæruvalds sé byggt á því að konan hafi dregið sér rúmlega 50 milljónir króna frá fyrirtækjunum Yl-húsum og Hraunbæ 107. „Rannsókn lögreglu hefur að því er virðist ekki beinst sérstaklega að fjárhagsstöðu eða bókhaldi þessara félaga. Þannig verður ekki séð að reynt hafi verið að afla gagna um útgáfu félaganna á víxlum og skuldabréfum á tímabilinu sem fjárdrátturinn á að hafa staðið.“
Þá segir að í málflutningi hafi ákæruvaldið bent á að félögin hafi verið krafin um mjög háar fjárhæðir með innheimtubréfi. Það bréf hafi hins vegar ekki verið lagt fram og vitni bar að þeirri kröfu hefði ekki verið hreyft frekar, meira en þremur árum frá því að innheimtubréfið var sent.
Þá hafi ákæruvaldið talið að það leysti konuna ekki undan sök þótt hún hefði átt fjárkröfu á hendur félögunum. „Á þetta er ekki unnt að fallast. Augljóst er að ákærðu hafði verið falið að annast sölu skuldaskjala og greiðslu. Er ekkert fram komið sem bendir til þess að hún hafi farið út fyrir heimildir sínar í þessu efni. Virðist blasa við að bréf, ýmist skuldabréf eða víxlar, hafi verið gefin út til að greiða aðrar kröfur.“
Þegar allt var virt þá taldi dómurinn augljóst að konan hefði látið leggja inn á reikning sinn fé, sem fékkst fyrir sölu verðbréfa er nefnd félög gáfu út. Hún hefði staðfastlega haldið því fram að þarna hefði hún verið að fá endurgreitt lán og studdist það að nokkru við framburð vitna.
„Þá hefur ekki farið fram nein rannsókn á því hvort fé vantar inn í sjóði félaganna. Bókhald þeirra virðist ekki hafa verið rannsakað nema að hluta til. Sönnunarbyrði hvílir að meginstefnu til á ákæruvaldinu og þar sem rannsókn málsins er ekki tæmandi, er ekki unnt að leggja eitthvað upp úr því að ákærða kveðst hafa glatað gögnum.“