Sjávarútvegsráðuneytið gerir ráð fyrir að verðmætaaukningin á komandi fiskveiðiári verði tíu milljarðar króna. Alls verður heimilt að veiða 195.400 tonn af þorski á fiskveiðiárinu sem hefst hinn 1. september næstkomandi. Aflamark þorsks á yfirstandandi fiskveiðiári er 177 þúsund tonn.
Í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu kemur fram að ástand helstu nytjastofna sé gott og betra en hjá mörgum öðrum þjóðum. Ákvörðunin byggist á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem hún kynnti í síðasta mánuði. Þar var gert ráð fyrir 196 þúsund tonna þorskkvóta en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er í fyrsta skipti tekið tillit til veiða útlendinga á þorski, löngu og keilu. Vegna þess er aflamark þorsks 600 tonnum lægra, löngu 500 tonnum og keilu 300 tonnum lægra en annars hefði verið.
„Aflaregla sú er sett var fyrir nokkrum árum er að skila miklum árangri í uppbyggingu stofnsins. Sá árangur er að skila þjóðinni auknum verðmætum sem tali neru í milljörðum. Þess má geta að ákvörðun aflamarks í þorski nú, tæp 200 þús. tonn er tæpum 70 þús. tonnum meira en þegar minnst var 2007/2009,“ segir í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu.
Gott ástand á sumargotsíldinni
Í fjögur ár í röð hefur sýking herjað á stofn íslensku sumargotssíldarinnar. Nú eru, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu, sterkar vísbendingar um að sýkingin sé í rénum og horfur með stærð veiðistofnsins eru bjartari en undanfarin ár og því er hægt að auka aflamarkið. Verður það 64 þúsund tonn sem er þremur tonnum minna en Hafró lagði til. Á yfirstandandi fiskveiðiári er aflamarkið 45 þúsund tonn.
„Í heild vegur aukning aflamarks í þeim tegundum sem eru í sókn mun þyngra en samdráttur í tegundum sem lakar standa. Erfitt er að áætla nákvæmlega verðmætaaukningu sem af þessu hlýst, auk þess sem óvissa er enn um veiðar á mikilvægum tegundum eins og loðnu. Engu að síður er það mat ráðuneytisins að gera megi ráð fyrir nálægt 10 milljarða verðmætisaukningu á grundvelli ákvörðunarinnar nú,“ segir ennfremur í tilkynningu ráðuneytisins.
Ástand ýsustofnsins slæmt
Aflamark ýsu, djúpkarfa, steinbíts, þykkvalúru og skötusels minnkar á milli ára. Ástand ýsustofnsins er slæmt vegna nýliðunarbrests undanfarinna ára. Aflamark í ýsu var 105 þúsund tonn 2006/07 en er nú 36 þúsund tonn. Hafró lagði til að ýsukvótinn yrði 32 þúsund tonn. Á yfirstandandi fiskveiðiári er kvótinn 45 þúsund tonn.
Ákveðið hefur verið að hefja nú undirbúning að endurskoðun og framlengingu aflareglu fyrir þorskveiðar og sömuleiðis er undirbúningur að mótun aflareglna fyrir ýsu, karfa og ufsa langt kominn.