Eyðibýli brann til kaldra kola

mbl.is/Eggert

Eyðibýli í Dalabyggð brann til kaldra kola í morgun. Tilkynning barst kl. 6:20 og voru slökkviliðsmenn komnir á staðinn um 20 mínútum síðar. Þá var allt brunnið. Engan sakaði og ekki er bráð hætta á ferðum.

Fjórir slökkviliðsmenn á tveimur dælubílum eru á vettvangi. Sæmundur Jóhannsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri Slökkviliðs Dalabyggðar, segir í samtali við mbl.is að unnið sé að því að slökkva í glæðum.

„Það var allt búið þegar við komum. Húsið var fallið saman,“ segir hann.

Um er að ræða bæinn Hól í Hörðudal sem er bárujárnsklætt timburhús. Sæmundur segir að húsið hafi verið gamalt og verið eyðibýli í um það bil ár og var búið að fjarlægja öll verðmæti úr húsinu.

„Við erum að reyna að slökkva í þessum glæðum,“ segir Sæmundur og bætir við að slökkvistarfið gangi ágætlega.

Mikill mór er við bæinn en Sæmundur segir að búið sé að rennbleyta svæðið og óttast því ekki útbreiðslu.

Eldsupptök eru ókunn og hefur lögreglan málið til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert