Með dýpstu lægðum í júlí

Tjöld.
Tjöld. Brynjar Gauti

Úrkomumagn á laugardag og fram á mánudag gæti víða orðið 20-25 mm, gangi spár eftir. „[F]yrir tjaldbúa og aðra þá sem hyggja á útiveru jafngildir magnið eins og hellt væri hægt og rólega úr 20 mjólkurfernum á hvern fermetra lands,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Einar skrifar pistil um helgarveðrið á vefsvæði sitt. Hann segir að spáð sé lægð með einni þeirri mestu dýpt sem sést hefur í júlí hér við norðanvert Atlantshafið eða um 965 hPa suðvestur af landinu snemma á sunnudag.

Um sé að ræða lægð sem líkist haustlægð, þótt hún sé það ekki í eðli sínu. „Hún verður þó til fyrir samspil háloftakulda við NA-Kanada og hlýs lofts yfir Atlantshafinu. Miðju lægðarinnar er þó ekki spáð beint yfir landið heldur hér sunnan við.“

Þetta þýðir að það getur orðið mjög hvasst, sérstaklega á suðvesturhorninu þó svo vindhraðinn sé enn nokkuð óráðinn.

Þó svo erfiðara sé að spá um veðrið eftir helgi segir Einar að ljóst sé að það muni kólna og gera kalsa um norðanvert landið, ef fer sem horfir. „Það telst til láns hins vegar að ekki er mikið um kalt loft norðurundan, en sjórinn er vitanlega kaldur lengra í burtu og hafís til staðar sem mótar lofthitann djúpt í norðri og norðvestri. Farið gæti svo að það snjóaði í fjöll norðan- og austantil og einkum þá hærri fjöll og þá væntanlega á þriðjudag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert