Sárt að horfa upp á ástandið í Sýrlandi

Finnbogi Rútur og vinir virða fyrir sér útsýnið yfir Damaskus …
Finnbogi Rútur og vinir virða fyrir sér útsýnið yfir Damaskus frá Kassioun fjalli. Ljósmynd/Finnbogi Rútur Finnbogason

Mikil einföldun er að segja almenna Sýrlendinga annað hvort styðja stjórnvöld eða byltingarmenn. Flestir vilja fyrst og fremst forðast borgarastyrjöld og lifa af. Þetta segir Íslendingur sem var við nám í Sýrlandi þar til landinu var lokað. Sýrlenskir vinir hans óttast glundroða falli stjórn Assad.

Heilluðust af landi og þjóð

„Ég get alveg sagt þér það að Sýrlendingar eru næstum óþægilega gestrisnir og almennilegir. Ég hafði aldrei kynnst þessu áður þegar ég fór þangað fyrst, og hafði þó ferðast töluvert. Ég og vinir mínir í háskólanum hlógum oft að því hvernig okkur var sífellt boðið heim til fólks í mat og te. Ég upplifði þetta sem minnst hættulega svæði sem ég hefði verið á, það kom aldrei til greina að ég væri áreittur eitthvað sem útlendingur," segir Finnbogi Rútur Finnbogason, nú háskólanemi í París.

Finnbogi Rútur kom fyrst til Sýrlands árið 2006 með fjölskyldu sinni og þau heilluðust öll af landi og þjóð. Ári síðar sneri hann aftur ásamt vinum sínum og þegar kreppan skall á hér á landi haustið 2008 ákvað hann að hætta stjórnmálafræðinámi í Háskóla Íslands og flytja til Sýrlands. Hann segist hafa séð miklar framfarir í höfuðborg landsins með hverju árinu.

Kjör margra bötnuðu í tíð Assads

„Í borgunum var hreinsað til, þar var vatnið orðið drykkjarhæft og fólk bjó við aðeins meira ferðafrelsi en áður. Túrisminn hefur aukist stöðugt frá því Assad tók við og þann tíma sem ég var þar varð það sífellt meira áberandi. Fullt af nýjum hótelum, kaffihúsum og klúbbum opnuðu í Damaskus. Rétt áður en háskólanemar hættu að fá vegabréfsáritanir og við síðustu fórum úr landinu þá litu hlutirnir mjög vel út."

Eftir að Sýrland lokaðist fyrir erlendum stúdentum um mitt ár 2010 þurfti Finnbogi Rútur að hætta arabískunámi sínu við The Higher Language Institute í Damaskus. Hann bjó um tíma með föður sínum í Jórdaníu og fór þá oft yfir til Sýrlands en fluttist svo til Parísar þar sem hann lagði áfram stund á arabísku. Í haust hefur hann svo nám í stjórnmálafræði og heimspeki við Sorbonne háskóla. „Ég held ég fari aftur, og sötri kaffi í gömlu borginni um leið og færi gefst," segir Finnbogi Rútur sem saknar Damaskus og finnst sárt að fylgjast með versnandi ástandinu í landi sem er honum kært. 

Illskárri kosturinn af tveimur slæmum

Í millitíðinni heldur hann sambandi við sýrlenska vini sína í gegnum Facebook, og segist oft sjá hjá þeim viðhorf sem stangist á við þau sem helst berist í gegnum vestræna fjölmiðla. „Þeir eru Assad-istar. Ekki vegna þess að þeir séu stuðningsmenn hans eða í flokknum, heldur vegna þess að þeir telja að hann sé illskárri kosturinn af tveimur slæmum. Þetta eru menntaðir borgarbúar í millistétt og þeim finnst það sem verið er að segja í sveitunum og fátækari héruðum ekki endurspegla sínar skoðanir. 

„Í þeirra augum eru uppreisnarmennirnir vopnaðir ofbeldismenn með engan réttlætanlegan málstað sem hafa valdið ójafnvægi í landinu og þeir óttast hvað muni gerast ef stjórnin fellur. Mér finnst lítið sem ekkert heyrast frá þessari hlið, en það er kannski ekki skrýtið, því raddir þeirra sem kveljast eru auðvitað hærri. Þetta er kannski ekki rödd Sýrlands, þessi borgarastétt sem hefur haft það gott og er á Facebook."

Flóknar átakalínur

Finnbogi Rútur bendir á að íbúar helstu borga Sýrlands, Damaskus, Aleppo og Latakia, hafi upplifað bætt lífskjör undanfarin áratug, eftir að Bashar al-Assad tók við sem forseti og þeir vilji halda í þau. Góðærisbylgjan hafi hinsvegar ekki náð í sveitirnar. Þar ríki meiri fátækt og einangrun, en jafnframt meiri íhaldssemi. Þrátt fyrir þessi skil milli íbúa sveita og borga segir Finnbogi Rútur of mikla einföldun að kalla átökin í Sýrlandi stéttabaráttu, átakalínurnar séu flóknari en svo. „Þetta er ekki stéttabarátta, þetta er ekki trúarbarátta, ekki hrein valdabarátta. Þetta er einhvers konar kokteill af öllu þessu."

Það var í fátækari héruðum Sýrlands sem krafan um breytingar byrjaði og með tímanum þróaðist hún yfir í harða andstöðu gegn Assad. Forsetinn var lengi vel afar vinsæll og vel liðinn meðal stórs hluta þjóðarinnar en stuðningur við hann hefur farið ört dvínandi. „Vegna þess að hann fer svo harkalega að. Hann virðist vilja sýna að hann sé sterkur og taki á hryðjuverkum af hörku, en þegar hann byrjaði að skjóta á fólk fór hann að missa fylgi. Hann hefur farið langt yfir strikið," segir Finnbogi Rútur.

Ástandið farið úr böndunum

Assad reyndi að lægja öldurnar í upphafi mótmælanna með tilslökunum. Í apríl 2011 var aflétt neyðarlögum sem höfðu verið í gildi í landinu í hálfa öld og lög sem heimila friðsamleg mótmæli samþykkt. Þá var opnað fyrir notkun samfélagsmiðla s.s. Facebook, Twitter og Youtube, sem áður var aðeins hægt að nálgast eftir krókaleiðum. Finnbogi Rútur segir að þessar tilraunir Assads hafi verið of takmarkaðar og komið of seint. 

„Þetta er löngu farið úr böndunum og gerist hjá báðum hliðum. Það eru hefndarmorð, nauðganir og pyntingar og bara almenn hræðsla og ógeð. 20.000 manns hafa týnt lífi og yfir 100.000 flúið landið. Ég held að það sé alveg ljóst að Assad og hans menn verða að fara frá, en ég er ekki sannfærður um að hinir séu góður kostur til að taka við. Það er hættulegt að ætla að dæla fé eða vopnum í uppreinsarmenn án þess að vita almennilega hverjir uppreisnarmennirnir eru. Ég sé enga lausn á þessu. Ekki neina."

Endalokin nærri?

Finnbogi Rútur er ekki einn um það, því flest Vesturlönd og Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið að sér höndum. Eftir 18 mánaða átök geisa enn blóðugir bardagar milli sýrlenska stjórnarhersins og stjórnarandstæðinga. Fregnir herma að tugir erlendra íslamista hafi farið til Sýrlands í júlí til að taka þátt í baráttunni gegn stjórnvöldum.

Hinar fornu menningarborgir Damaskus og Aleppo hafa að mestu sloppið við átök til þessa og daglegt líf haldist í horfinu en síðustu daga hafa bardagarnir breiðst þangað. Teikn eru á lofti um að endalok átakanna nálgist en óvissan er mikil og hætt við því að glundroði ríki ef að stjórnkerfið hrynur án þess að annað taki strax við. 

Hugsa fyrst og fremst um að lifa af

Einn af sýrlensku vinum Finnboga Rúts var búsettur í Aleppo en yfirgaf landið fyrir skömmu og er nú í Georgíu. Finnbogi Rútur segir að búast megi við því að þeir íbúar Aleppo sem styðji stjórnvöld þori nú ekki að opinbera skoðanir sínar af ótta við hvað muni gerast ef borgin fellur og að sama skapi óttist þeir sem styðji uppreisnarmenn um örlög sín nái stjórnarherinn að halda borginni.

Hann ítrekar hinsvegar að það sé of mikil einföldun að draga átakalínur milli íbúa eftir svæðum, trú eða stétt. „Ég held að flestir Sýrlendingar hugsi fyrst og fremst um að lifa daginn af, fá að borða og drekka, forðast götuátök, ofbeldi og halda fjölskyldunni úr hættu. Það er frjálsleg túlkun fyrir hönd hræddra og svangra íbúa Sýrlands að tala eins og þeir séu annað hvort andsnúnir hernum eða andsnúnir stjórnvöldum. Þeir eru fyrst og fremst andsnúnir borgarastríði."

Finnbogi Rútur skiptir við ávaxtasala í gömlu borginni í Damaskus, …
Finnbogi Rútur skiptir við ávaxtasala í gömlu borginni í Damaskus, höfuðborg Sýrlands og ein af elstu borgum heims. Ljósmynd/Finnbogi Rútur
Stuðningsmenn Bashar Al-Assad létu í sér heyra í Damaskus í …
Stuðningsmenn Bashar Al-Assad létu í sér heyra í Damaskus í apríl síðastliðnum, þegar vopnahlé Sameinuðu þjóðanna tók gildi. AFP
Stúdentar við inngang Higher Language Institute í Damaskus þar sem …
Stúdentar við inngang Higher Language Institute í Damaskus þar sem Finnbogi Rútur lærði arabísku. Ljósmynd/Finnbogi Rútur
Í matarboði hjá sýrlenskri vinkonu Finnboga Rúts
Í matarboði hjá sýrlenskri vinkonu Finnboga Rúts Ljósmynd/Finnbogi Rútur
Brunnur og sítrónutré í húsi Finnboga Rúts í gömlu borg …
Brunnur og sítrónutré í húsi Finnboga Rúts í gömlu borg Damaskus. Ljósmynd/Finnbogi Rútur
Útsýnið við sólsetur frá svölunum á heimili Finnboga Rúts í …
Útsýnið við sólsetur frá svölunum á heimili Finnboga Rúts í Damaskus. Ljósmynd/Finnbogi Rútur
Sýrlenskir stjórnarhermenn setja upp vegatálma í Damaskus 31. júlí 2012.
Sýrlenskir stjórnarhermenn setja upp vegatálma í Damaskus 31. júlí 2012. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert