Kröfur eru gerðar um að Vegagerðin geri ráð fyrir B-leið í matsáætlun vegna umhverfismats við leiðaval fyrir nýjan Vestfjarðaveg nr. 60 um Gufudalssveit.
Vegagerðin gaf almenningi kost á að tjá sig um drög að tillögu að matsáætlun. Allmargar umsagnir hafa borist, að sögn Kristjáns Kristjánssonar, forstöðumanns hjá Vegagerðinni. Von er á fleiri umsögnum í þessari viku. Kristján telur að veigamestu athugasemdirnar snúi að því að ekki var gert ráð fyrir B-leiðinni svonefndu í drögunum.
B-leiðin þverar Gufufjörð og Djúpafjörð og liggur um Teigsskóg í Þorskafirði. Gert er ráð fyrir þessari leið í aðalskipulagi Reykhólahrepps. Vegagerðin telur hins vegar fullreynt, vegna dóms Hæstaréttar, að fá leyfi til að leggja veginn eftir þessari leið. Þess vegna ákvað stofnunin að skoða þrjár aðrar leiðir.