Tortryggir áhersluna á stjórnarskrána

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður.
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður. mbl.is/Sigurgeir S.

Lilja Mósesdóttir alþingismaður segir það tortryggilegt hversu mikilvægt það sé í augum margra liðsmanna ríkisstjórnarinnar að samþykkt sé ný stjórnarskrá. Hún hafi ekki orðið vör við sama baráttuvilja í umræðunni um skuldavanda heimilanna. Þá segir hún margar góðar tillögur hafa komið frá stjórnlagaráði en ýmislegt þurfi þó að laga og skýra í þeim. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hennar í dag.

„Ég óttast að umræðan næstu vikurnar muni aðallega snúast um hvort samþykkja eigi stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs óbreytt eða ekki. Margar fínar tillögur komu frá stjórnlagaráðinu en ýmislegt þarf að skýra og laga. Mér finnst reyndar tortryggilegt hvað mörgum liðsmönnum ríkisstjórnarinnar finnst mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá. Ég hef ekki orðið vör við þennan baráttuvilja í umræðunni um lausnir á skuldavanda heimilanna! Auk þess man ég ekki til þess að ný stjórnarskrá hafi verið mikilvægt baráttumál í búsáhaldabyltingunni,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert