Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur fjallaði á fundi sínum 13. ágúst síðastliðinn um tillögu borgarstjórnar um að flytja Járnsmiðinn eftir Ásmund Sveinsson á hafnarsvæðið milli Sjóminjasafnsins, Slippsins og Nýlendugötu, en hann er nú staðsettur í garðinum á milli Þorfinnsgötu og Snorrabrautar.
Samþykkti ráðið með fimm atkvæðum að fela safnstjóra Listasafns Reykjavíkur að vinna að nýrri staðsetningu Járnsmiðsins í samvinnu við Skipulagssvið, en fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu greiddu atkvæði gegn tillögunni.
Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, segir að vinnan við að ákvarða staðsetningu Járnsmiðsins á hafnarsvæðinu sé komin í gang. Nokkrar tillögur hafi verið ræddar en engin niðurstaða sé fengin. Stefnt sé að því að hafa Járnsmiðinn sem næst Slippnum.
Aðspurður hvort styttan fengi notið sín á hafnarsvæðinu segir Hafþór að mikilvægt sé að tryggja það að skýrar sjónlínur séu að listaverkinu þannig að það myndi hvorki týnast á bak við tré né hús.