50 stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi fá úthlutað sem nemur um 85,2% af því aflamarki sem úthlutað er á fiskveiðiárinu sem er að hefjast, en alls fá 487 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú en þeir voru 502 í fyrra.
Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 sem hefst 1. september. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og á fyrra fiskveiðiári. Úthlutað er 318.554 tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 299.538 þorskígildistonn á sama tíma í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð. Aukninguna má rekja til aukinnar úthlutunar í þorski sem nemur tæpum 23 þúsund tonnum. Úthlutun á ýsu dregst saman um tæp 6 þúsund tonn en um 4,5 þúsund tonnum meira er úthlutað á ár af gullkarfa en í fyrra. Þá er úthlutað tæplega 63 þúsund tonnum af síld saman borið við um 5 þúsund tonn í upphafi fyrra fiskveiðiárs.
Alls fá 603 skip úthlutað aflamarki í ár, fiskveiðiárið 2012/2013, samanborið við 612 skip fiskveiðiárið 2011/2012. Mest fer til Guðmundar í Nesi, RE 13, rúm 7.900 þorskígildistonn eða 2,5% af úthlutuðum þorskígildum, að því er fram kemur í frétt frá Fiskistofu.
Úthlutun eftir fyrirtækjum
50 stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 85,2% af því aflamarki sem úthlutað er, en alls fá 487 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú en þeir voru 502 í fyrra. Sé litið til þeirra 10 sem eru með mesta úthlutun fær HB Grandi, líkt og í fyrra, mestu úthlutað til sinna skipa eða 10,8% af heildinni, næst kemur Samherji með 6,5% og þá Þorbjörn hf. með 5,7%. Þetta er sama röð efstu fyrirtækja og í fyrra.
Þrjár heimahafnir skera sig úr eins og undanfarin ár með að skip sem þeim tilheyra fá töluvert mikið meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík eða 14,2% af heildinni samanborið við 11,4% í fyrra. Breytingin felst í aukinni úthlutun til skuttogara þaðan. Næstmest fer til Vestmannaeyja eða 10,6% og þá til skipa með heimahöfn í Grindavík, eða 9,5% af heildinni, og er það í báðum tilvikum svipað hlutfall og í fyrra.
Hlutfall sem fer til skipa hjá hverri höfn fyrir sig breytist í flestum tilvikum eitthvað og má rekja það til breytinga á þorskígildisstuðlum sem og tilfærslu aflahlutdeilda á milli skipa með ólíka heimahöfn. Vísað er til yfirlitstöflunnar sem tengill er í hér að neðan.
Úthlutað er til færri smábáta (smábáta með aflamark og krókaaflamark) á þessu fiskveiðiári en í fyrra, 426 samanborið við 431. Skipum í „stærra kerfinu“ fækkar um 4 milli ára og eru nú 261. Samkvæmt útgerðarflokkun Fiskistofu fá skuttogarar úthlutað 54,2% af heildaraflamarki í ár í þorskígildum talið, skip með aflamark 32,7%, smábátar með aflamark 1,3% og krókaaflamarksbátar 11,8%. Mikilvægt er að vekja athygli á því að krókaaflamarksbátar fá eingöngu úthlutað þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, löngu, keilu og steinbít. Krókaaflamarksbátar fá úthlutað 14,3% af magninu í þorskígildum talið þegar eingöngu litið til þessara tegunda.
Listi yfir úthlutun aflamarks á nýju fiskveiðiári