Sömdu við smábátaeigendur

Vöfflurnar gerðar klárar eftir undirskriftina eins og hefð er fyrir. …
Vöfflurnar gerðar klárar eftir undirskriftina eins og hefð er fyrir. Örn Pálsson og Magnús Pétursson hjálpuðust að við baksturinn.

Í dag var skrifað undir kjarasamning milli Framsýnar- stéttarfélags og Landssambands smábátaeigenda vegna sjómanna á smábátum að 15 brúttótonnum í húsnæði Ríkissáttasemjara.  Kjarasamningurinn nær yfir félagsvæði Framsýnar, það er þrjá útgerðarstaði; Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn. Samningurinn gildir til 31. janúar 2014.

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, segir í frétt á heimasíðu Framsýnar, að hann væri mjög ánægður með samninginn. Viðræður hefðu staðið milli aðila undanfarna mánuði með hléum. Um tímamótasamning væri um að ræða þar sem félagsmenn Framsýnar hefðu fram að þessu, líkt og aðrir smábátasjómenn á Íslandi, ekki haft kjarasamning um  sín kjör og réttindi. Kjarasamningurinn væri í anda þess samnings sem Sjómannasambandið hefði gengið frá við Landssamband smábátaeigenda í vikunni. Þess ber að geta að Framsýn eitt félaga innan Sjómannasambandsins ákvað að veita sambandinu ekki samningsumboð f.h. félagsmanna og fór félagið því sjálft með samningsumboðið.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert