Eftirgrennslan Vegagerðarinnar í gær, í framhaldi af frétt í Morgunblaðinu, leiddi í ljós að þjónustuskilti við afleggjarann í Munaðarnes í Borgarfirði var þar sett niður án tilskilins leyfis hjá Vegagerðinni.
Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, hafa samskipti átt sér stað við staðarhaldara í Munaðarnesi um að þeir fjarlægðu skiltið af þessum stað. „Verði skiltið ekki fjarlægt þá munum við gera það sjálfir á morgun [í dag],“ sagði Pétur við Morgunblaðið í gær.
Skiltið stendur það nálægt þjóðveginum að það byrgir sýn ökumanna sem ætla að beygja af afleggjaranum til suðurs inn á þjóðveginn.