Dæmdur fyrir að stela grillkjöti

Grillkjöt.
Grillkjöt. Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt þrítugan karlmann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela átta pakkningum af grillkjöti og einu ilmvatnsglasi úr verslunum á Selfossi. Þá var honum gert að greiða 240 þúsund krónur í sekt fyrir athæfið.

Maðurinn fór inn verslun Hagkaups á Selfossi 11. febrúar sl. og stal þar ilmvatni að verðmæti tíu þúsund króna. Því næst fór hann yfir í verslun Bónuss, sem er í sama húsi, og stal þaðan grillkjötinu sem var að verðmæti 12.600 króna.

Þá fór hann með ránsfenginn út í bifreið sína og ók henni að Húsasmiðjunni þar sem lögregla stöðvaði hann og handtók. Reyndist hann áður hafa verið sviptur ökurétti auk þess sem í blóði hans mældist amfetamín.

Þegar lögregla svo leitaði á heimili mannsíns í Þorlákshöfn fannst þar 0,58 grömm af maríjúana og 0,3 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem maðurinn komst í kast við lögin en hann hefur áður verið dæmdur fyrir þjófnað og akstur undir áhrifum fíkniefna.

Fyrir dómi upplýsti maðurinn um það, að hann hafi ekki notað fíkniefni í fjóra mánuði og sé þátttakandi í endurhæfingaúrræði á vegum Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka