Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness sem hafnaði verjendum Annþórs Kristjáns Karlssonar og ellefu öðrum um afhendingu mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af ákærðu og vitnum í máli á hendur þeim. Skipti engu þó verjandi eins ákærða í málinu hafi þá undir höndum.
Hæstiréttur vísar til dómafordæma en rétturinn hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að hljóð- eða mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslu lögreglu af sakborningum og vitnum, teljist ekki til skjala í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Af þeim sökum megi synja um afhendingu þeirra.
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 segir að verjandi skuli jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu.
Þá segir að skýrslur af ákærðu og vitnum hafi annað hvort verið skráðar sem samantekt, byggð á upptökunni, eða því sem næst orðrétt, samhliða upptöku og hafi þau gögn verið lögð fram í málinu og afhent verjendum. „Þá verður fallist á það með héraðsdómi að engu breyti um kröfu varnaraðila þótt einum hinna ákærðu í málinu og verjanda hans hafi fyrir mistök verið afhentir mynd- og hljóðdiskar af skýrslutökum.“
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari var ósammála meirihluta réttarins og skilaði séráliti. Þar segir að túlkun meirihlutans leiði til þess að sá sem rannsaki sakamál hafi í hendi sinni að takmarka aðgang verjanda að framburðarskýrslu með því að velja tækni við skráningu hennar sem undanþegin er heimild verjandans til að fá afrit afhent samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008.
Þetta segir hann ótæka lögskýringu. „Með vísan til alls þessa tel ég að túlka beri ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 þannig að því verði beitt um afrit hljóðrita og mynddiska. Samkvæmt þessu ber verjanda réttur til að fá slík gögn afhent nema þau séu sérstaklega undanþegin með öðrum ákvæðum laganna svo sem til dæmis er gert í 3. mgr. 37. gr.“