„Þetta var með erfiðari aðstæðum sem maður lendir í og á tímabili horfðist maður í augu við að geta jafnvel ekki bjargað mönnunum,“ segir Þórarinn Ingi Ingason, flugstjóri TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem bjargaði fimm hestamönnum úr sjálfheldu á eyri í Jökulsá í Lóni á mánudagskvöld.
Mennirnir fimm voru um kílómetra norður af Múlaskála þegar þeir fundust en auk þeirra tók þyrlan upp þrjá kalda ferðafélaga þeirra í skálanum.
Aðstæður voru erfiðar þetta kvöld. Fyrir utan kolniðamyrkur var rúmlega fimmtíu hnúta vindur og skyggni á flugvellinum á Höfn mældist fjögur hundruð metrar þegar þyrlan kom að Stokksnesi af hafi. Þórarinn segir í umfjöllun um björgunin í Morgunblaðinu í dag, að um leið og þyrlan kom inn á land hafi skýjabakki lokað flugleiðinni upp dalina. Þá hafi hann óttast að ná ekki til mannanna.
„Þetta hefði verið vonlaust án nætursjónaukanna,“ segir Lárus Helgi Kristjánsson, flugmaður í áhöfn TF-LIF í björguninni á mánudagskvöld, í blaðinu. Þyrlan þurfti að fljúga í algeru myrkri, lélegu skyggni og þröngum dal og því komu sjónaukarnir, sem festir eru á hjálma áhafnarinnar, sér vel.