Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að kona, sem játað hefur aðild að fíkniefnasmygli, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Konan hefur setið í varðhaldi frá því í maí. Einnig ógilti Hæstiréttur gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni, sem framseldur var til landsins frá Hollandi nýlega eftir að hafa verið eftirlýstur í kerfi alþjóðalögreglunnar Interpol.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að upphaf málsins megi rekja til fjölda ábendinga, sem bárust lögreglunni á Suðurnesjum, um að karlmaður og kona, sem nefna má A og B, stæðu að innflutningi fíkniefna til landsins. Formleg rannsókn hófst í desember á síðasta ári með símhlustunum lögreglu á grundvelli dómsúrskurðar.
Á sama tíma lagði lögregla hald á 347 grömm af kókaíni sem par flutti innvortis frá Spáni í gegnum Bretland. Það vildi ekki gefa upp hverjir stæðu á bak við innflutninginn en grunur lék á að A og B væru þar að verki.
Í símtölum, sem voru hleruð, mátti heyra fólkið ræða um og skipuleggja innflutning á fíkniefnum frá Danmörku en konan hafi fengið móður sína, sem búsett er í Danmörku til að taka fyrir sig ferðatösku til landsins í maí á þessu ári. Í ferðatöskunni fundust 569 grömm af kókaíni falin. Fólkið var handtekið í kjölfarið. Maðurinn neitaði sök en konan játaði aðild sína að innflutningi kókaíns.
Annar maður, C, var einnig talinn tengjast málinu en hann var staddur í Danmörku þegar þessir atburðir gerðust. Réði lögregla af símtölum, sem voru hleruð, að sá maður hefði tekið þátt í að skipuleggja kókaíninnflutninginn og m.a. útvegað töskuna og séð um að útbúa hana með efnunum til Íslandsfarar.
Lýst var eftir manninum í gegnum alþjóðalögregluna Interpol og var hann handtekinn í Hollandi í ágúst eftir að íslensk kona sakaði hann og fleiri Íslendinga um að hafa ætlað að selja sig í vændi til Brasilíu. Maðurinn var síðan framseldur til Íslands 5. september 2012 og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 11. október.
A og B voru í ágúst ákærð fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa á árunum 2011 og 2012 staðið saman að innflutningi á samtals tæpu kílói af kókaíni til Íslands frá Bretlandi og Danmörku. Þá voru þau sökuð um tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots með því að hafa afhent stúlku 140 grömm af kókaíni í Kaupmannahöfn í febrúar 2012 í því skyni að hún flytti efnið til Íslands. Aðalmeðferð fer fram í málinu í byrjun október.
Konan hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því í maí. Lögreglan krafðist þess í síðustu viku að varðhaldið yrði framlengt til 9. október á grundvelli almannahagsmuna. Á það féllst héraðsdómur en Hæstiréttur felldi þann úrskurð úr gildi og taldi, að ákæruvaldið hefði ekki sýnt fram á, að nauðsynlegt væri að úrskurða konuna í áframhaldandi gæsluvarðhald með tilliti til almannahagsmuna í skilningi laga.
C var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 11. október eins og áður greinir og var það gert á grundvelli almannahagsmuna. Hæstiréttur hefur nú fellt þann úrskurð úr gildi og segir, að ekki verði talið að ákæruvaldið hafi sýnt fram á að nauðsyn beri til að úrskurða manninn í gæsluvarðhald með tilliti til almannahagsmuna.