Fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins er verri en talið var og eru stjórnendur stofnunarinnar að undirbúa aðgerðir sem miða að því að spara í rekstri.
Þetta kom fram á Alþingi í dag þegar Mörður Árnason alþingismaður spurði um fjárhagsstöðu stofunarinnar. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra sagði að hún hefði átt fund með stjórnendum RÚV í júní og þar hefði komið fram að nokkur halli væri á rekstrinum, en hallinn væri ekki óeðlilegur sé horft til rekstrar næstu ára. Hafa þyrfti í huga að Ólympíuleikar hefðu verið í ár, en leikarnir kölluðu á útgjöld sem ekki féllu til á næsta ári.
Katrín sagðist myndu eiga fund með stjórnendum RÚV mjög fljótlega og þá fengi hún betri upplýsingar um fjárhagsstöðuna og hvort hún hefði versnað til muna frá því í sumar.
Mörður sagði óeðlilegt að mikill kostnaður við Ólympíuleika bitnaði á starfsmönnum Rásar eitt. DV segir frá því í dag að fyrirhugað sé að segja upp sex starfsmönnum Rásar eitt.
Sjá frétt mbl.is: Ekkert ákveðið um uppsagnir