Jóhanna dragi til baka eða skýri ummæli sín

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það er ekki við hæfi að forsætisráðherra fari fram með slíkum hótunum á grundvelli þess að henni líki ekki ummæli forseta Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Það er mjög mikilvægt að forsætisráðherra dragi þessi ummæli sín til baka eða skýri þau, þau geta ekki staðið svona óbreytt.“

Þetta segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is en hann gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag ummæli sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lét falla í umræðum í þinginu í morgun þess efnis að skoða þyrfti alvarlega með að draga úr aðkomu stjórnvalda að gerð kjarasamninga í ljósi gagnrýni forystumanna aðila vinnumarkaðarins á stjórnvöld.

„Forystumenn á vinnumarkaði hafa sagt að það hrikti mjög í forsendum kjarasamninga og það skiptir miklu fyrir efnahag Íslands að það komi ekki til deilna á vinnumarkaði. Ef ríkið vill draga úr aðkomu sinni að kjarasamningum þá verður það að gerast á málefnalegum forsendum en ekki í einhverju reiðikasti sem viðbrögð við réttmætri gagnrýni forystumanna vinnumarkaðarins,“ segir hann.

Illugi fór fram á það að sérstök umræða færi fram um málið á Alþingi síðar í dag og sagði sitjandi forseti Alþingis, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, að það yrði tekið til skoðunar. Jóhanna taldi hins vegar ekki þörf á slíkri umræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert