„Þeir Björn Zoëga og Guðbjartur Hannesson hafa nú gefist upp á launahækkuninni góðu fyrir aukastörf forstjórans við lækningar. Þá er að vona að Björn haldist í vinnu þrátt fyrir lélegu launin,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á heimasíðu sinni.
Eins og mbl.is greindi frá í gær hefur Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, afþakkað launahækkun upp á 450 þúsund krónur sem honum var veitt af Guðbjarti Hannessyni, velferðarráðherra, í ágúst síðastliðnum en hækkuninni hefur verið harðlega mótmælt.
„Getur kannski kennt okkur sitthvað. Annarsvegar að hafi menn markað sér stefnu þá á að standa við hana, jafnvel þótt hún sé fyrst og fremst táknræn einsog sú að enginn hafi hjá ríkinu hærri laun en forsætisráðherrann. Eða þá að breyta henni. Ekki reyna hjáleiðir,“ segir Mörður.
Hann leggur áherslu á að vonlaust sé til lengdar fyrir opinbera vinnuveitendur að keppa við „ofurlaun á almennum vinnumarkaði.“ Vilji menn hærri laun en eru í boði hjá hinu opinbera verði þeir að leita annað. Annað eigi að laða fólk að opinberum störfum en há laun eins og atvinnuöryggi, gott starfsumhverfi og vissa um að farið sé að kjarasamningum.
„Held að þetta sé ekki raunverulegt vandamál – að það fáist oftast einhverjir sem eru næstum jafngóðir og Björn Zoëga, og geti jafnvel orðið betri en hann með svolítilli reynslu og hjálp. Á alþjóðamarkaði ef ekki finnast hæfileikamenn á Íslandi,“ segir Mörður.