Stærstur hluti skulda- og greiðsluvanda heimilanna í landinu var tilkominn fyrir hrun bankanna en skuldirnar náðu hámarki sínu að raunvirði á árinu 2009. Þetta er á meðal niðurstaðna síðari skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um áhrif fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið en skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í morgun.
Fram kemur að rúmlega 91% af því sem skuldir heimilanna fóru mest í 2009 hafi þegar verið orðið til á árinu 2007 og 99% í lok árs 2008. Ástæðan eru ekki síst gengisfellingar sem áttu sér stað áður en bankarnir hrundu að sögn Stefáns Ólafssonar, prófessors og höfundar skýrslunnar með Arnaldi Sölva Kristjánssyni hagfræðingi og Kolbeini Stefánssyni félagsfræðingi.
Ennfremur sagði Stefán að samkvæmt skýrslunni hefði um áramótin 2011-2012 verið búið að afskrifa hátt í 15% af heildarskuldum heimilanna og hátt í 5% til viðbótar hefðu verið komin í afskriftarferli. Þetta væri í samræmi við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá hefði alvarlegur greiðsluvandi heimilanna minnkað um nær fjórðung frá því að hann náði hámarki 2009 sem áður sagði vegna úrræða stjórnvalda og verulegrar hækkunar vaxtabóta sem hefði verið beit til þeirra sem haft hefðu lægri tekjur.
Botni kreppunar á Íslandi náð 2010
Stefán sagði á fundinum að skýrslunar tvær sem Þjóðmálastofnun hefði unnið sýndu að Ísland hefði farið aðra leið í gegnum efnahagskreppuna en algengast hefði verið á Vesturlöndum. Um hefði verið að ræða blandaða leið í anda hagfræðingsins J.M. Keynes um virkar aðgerðir stjórnvalda og velferðarstefnu þar sem lögð hefði verið áhersla á að verja þá þjóðfélagshópa sem stæðu höllustum fæti.
Botni kreppunnar á Íslandi hefði verið náð á árinu 2010 og síðan hefði vöxtur hafist á ný hér á landi og kjörin smám saman batnað. Ísland væri fyrir vikið að ná sér mun fyrr upp úr efnahagskreppunni en aðrar þjóðir sem hefðu orðið illa fyrir barðinu á henni. Þannig hefðu umskipti orðið 2010 bæði varðandi skuldavandann, þrengingar fólks almennt og atvinnumál þó að atvinnubati hefði engu að síður verið hægur.
Fyrirtæki héldu að sér höndum vegna skulda
Stefán gat þess að þó að tekist hefði almennt að halda vel aftur af atvinnuleysi í kreppunni hefði störfum fjölgað of hægt eftir hrunið. Það væri þó algengur vandi í skuldsettum ríkjum eftir fjármálakreppur og nefndi hann Finnland sem dæmi í þeim efnum sem lenti í alvarlegum efnahagserfiðleikum í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Ástæðan væri ekki síst sú að fyrirtæki væru mjög skuldsett og héldu því að sér höndum.
Varðandi það sem betur hefði mátt fara segir í skýrlunni að barnabætur hefði þurft að hækka til þess að styðja við barnafjölskyldur og þá ekki síst þær sem hefðu keypt sér fasteignir síðustu árin fyrir hrun á háu verði. Þá hefði skerðing grunnlífeyris almannatryggingakerfisins bitnað illa á ellilífeyrisþegum með millitekjur og hærri tekjur. Þeir tekjuhæstu hefðu verið vel varðir en tekjur annarra hefðu hins vegar lækkað of mikið.