Öllu starfsfólki sagt upp

Kristján Andri Guðjónsson, framkvæmdastjóri Önguls.
Kristján Andri Guðjónsson, framkvæmdastjóri Önguls. Af vef bb

„Ég er búinn að segja upp öllu starfsfólki. Þannig er bara staðan núna,“ segir Kristján Andri Guðjónsson útgerðarmaður á Ísafirði og framkvæmdastjóri Önguls ehf. í samtali við Bæjarins besta.

Fyrirtækið greiddi á fimmtudag fyrstu greiðslu af fjórum af árlegu veiðigjaldi. Reikningur fyrirtækisins hljóðaði upp á fimm milljónir, en í fyrra var hann tæpar tvær milljónir. „Ég borgaði jafn mikið í almennt veiðigjald í ár, en borga nú til viðbótar 3 milljónir í sérstakt veiðigjald. Það er ekki bjart yfir þessu.“

Að sögn Kristjáns hefur útgerð Önguls verið skert um 100 tonn af ýsu á fjórum árum. „Það er engan ýsukvóta að hafa og ég sé ekki fram að eiga ýsukvóta eftir áramót,“ segir Kristján, sem hefur þurft að veiða þorsk á handfæri til að minnka kostnaðinn við útgerðina. Fram að áramótum munu bátar Önguls veiða ýsu á línu, en framhaldið er óvíst. Fimm starfsmönnum hefur verið sagt upp og taka uppsagnirnar Kristján sárt.

„Við þurfum að standa við okkar skuldbindingar gagnvart bönkum og öðrum aðilum. Starfsmönnunum hefur verið sagt upp með löglegum fyrirvara. Mér þykir ofsalega sárt að þurfa segja upp starfsfólki og er eitt það erfiðasta sem ég hef gert,“ segir Kristján, en starfsmennirnir munu hætta störfum um áramót. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka