Samstaða er á Alþingi um að gera breytingar á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna, en þær fela í sér að fatlaðir kjósendur geta sjálfir valið sér hver aðstoði þá við atkvæðagreiðslu.
Þetta mál er til umræðu á Alþingi í dag, en innanríkisráðherra hefur lagt áherslu á að það verði að lögum sem fyrst svo að hægt verði að byggja á þeim í þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram 20. október. Full samstaða varð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um málið.
Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði með skýrum hætti það nýmæli að þeir kjósendur sem lagaákvæðin ná til hafi sjálfir rétt til að ákveða hver aðstoði þá við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi. Þannig verði þeir ekki bundnir við aðstoð kjörstjóra í einrúmi eða fulltrúa úr kjörstjórn til þess að geta greitt atkvæði í kjörklefa.
Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að kjörstjóri skuli heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandinn sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúa sem hann hefur sjálfur valið. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að vegna margbreytileika fötlunar gæti þessi tilhögun um að tjá þurfi með skýrum hætti vilja sinn, verið of þröng. Nefndin tekur í því sambandi fram að með þeim áskilnaði að vilji kjósandans þurfi að vera skýr sé verið að vísa til þess að hann sé ljós, þ.e. að ekki fari milli mála hver vilji kjósanda er að þessu leyti.
Nefndin tekur einnig fram að samkvæmt gildandi kosningalögum skal aðstoð við að árita kjörseðil einungis veitt ef kjósandi getur sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Með frumvarpinu er m.a. verið að mæta gagnrýni sem komið hefur fram á þetta ákvæði laganna og verið að rýmka réttindi fatlaðs fólks í þá veru að vilji þess sé skýr.
Nefndin tekur auk þess fram að samkvæmt frumvarpinu er í reynd gert ráð fyrir margbreytileika fötlunar með ákvæði um að geti kjósandi ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra þennan vilja sinn skuli hann heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandi fram vottorð réttindagæslumanns.
Á fundum nefndarinnar kom fram að í tengslum við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs o.fl. hefur farið fram kynning á fyrirhuguðum breytingum, sem lagðar eru til í frumvarpinu, fyrir formönnum yfirkjörstjórna sem munu kynna þær fyrir öðrum kjörstjórnum. Nefndin telur það grundvallaratriði að breytingarnar séu kynntar ítarlega fyrir þeim og þá sérstaklega fyrir hverfiskjörstjórnum sem munu sinna þessu verkefni þar sem kjördeildir eru fleiri en ein. Nefndin telur auk þess nauðsynlegt að breytingin verði kynnt fyrir þeim sem eiga að njóta þessara réttinda og telur eðlilegt og gengur út frá því að hagsmunafélög fatlaðs fólks, sem hafa kallað eftir þessari réttarbót, kynni breytingarnar fyrir félagsmönnum sínum.