Skuldugir hætti að greiða í lífeyrissjóð

Mörður Árnason.
Mörður Árnason. mbl.is

Í þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi er kynnt sú hugmynd að fólki í vanda vegna húsnæðisskulda gefist kostur á að gera hlé á greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð í fimm ár en greiði þess í stað inn á höfuðstól húsnæðisskulda.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin láti kanna kosti og galla slíkrar ráðstöfunar fyrir skuldugar fjölskyldur, lífeyrissjóði, ríkissjóð og aðrar fjármálstofnanir, og skal sú athugun vera tilbúin 1. mars í vor. Flutningsmaður tillögunnar er Mörður Árnason.

„Með þessu væri skuldugu fólki í raun gefinn kostur á að taka lán hjá sjálfu sér,“ segir Mörður í greinargerð með tillögunni. Það fengi fé núna til skuldagreiðslna gegn því að missa hluta lífeyrisréttar síðar á ævinni. Hér sé því ekki verið að búa til peninga úr engu, eða afskrifa skuldir þannig að þær borgi einhver annar en skuldarinn. Við þetta kynni skuldabyrðin að léttast verulega hjá ýmsum hópum þar sem höfuðstóll skuldanna minnkaði mánaðarlega sem nemur 12% af launatekjum. Gert er ráð fyrir að takmarka heimild af þessu tagi við allerfiða skuldastöðu, og reikna með að  greiðslan bætist við fastagreiðslur af lánunum, sem ættu fljótlega að léttast af þessum sökum.  

Flutningsmaður lýsir í lok greinargerðarinnar fullum stuðningi við þau almennu prinsipp sem mynda grundvöll lífeyrissjóðanna íslensku. Ekki megi eyðileggja þann grunn og því sé lögð áhersla á að þetta sé tímabundið undantekningarúrræði – „til þess ætlað að leysa að hluta vanda illa staddra fjölskyldna eftir mesta áfall Íslandssögunnar af mannavöldum síðan á Sturlungaöld“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert