Jörð skelfur enn um landið norðanvert, en kl. 7.16 í morgun varð skjálfti sem mældist 3,4 stig um 24 km norðnorðaustur af Siglufirði. Jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að búast megi við eftirskjálftum af þessari stærðargráðu í kjölfar stóra jarðskjálftans sem varð um þarsíðustu helgi.
Martin Hensch, eldfjallaskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að enn mælist skjálftavirkni á svæðinu. Hann bendir á að sl. laugardagskvöld hafi mælst skjálfti, sem var 3,3 stig að stærð, á svipuðum slóðum og sá sem varð nú í morgun.
Hann segir að skjálftarnir séu á svipuðum slóðum og komi í kjölfar stóra jarðskjálftans sem varð aðfaranótt sunnudagsins 21. október, en hann var 5,6 stig að stærð. Skjálftahrinan komi mönnum ekkert á óvart.
„Þetta er mjög eðlilegt, því 5,6 er frekar stór og þar af leiðandi myndi maður við búast við eftirskjálftum næstu daga eða vikur. Það er nú í gangi og menn mega búast við áframhaldandi virkni næstu vikur,“ segir Hensch.
Hann tekur fram að ekki sé hægt að útiloka að stærri skjálfta á svæðinu og því fylgist menn grannt með.
Í síðustu viku lýsti ríkislögreglustjóri yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi. Það er enn í gildi. Óvissustig á við þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.