Vilja frekari rannsókn á einkavæðingu banka

Skrifað undir söluna á Landsbankanum til Samson
Skrifað undir söluna á Landsbankanum til Samson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Síðari umræða um tillögu að rannsókn á fyrri einkavæðingu bankanna var tekin fyrir í dag. Þar lagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknar, fram breytingartillögu um að seinni einkavæðing bankanna sætti einnig rannsókn samhliða þeirri fyrri.

„Þingflokkur framsóknarmanna telur nauðsynlegt að bæði einkavæðingaferlin séu tekin fyrir þar sem það seinna sé ekki síður mikilvægt, jafnvel mikilvægara en það fyrra fyrir hag almennings. Ýmsir vankantar á seinni einkavæðingunni hafi komið í ljós og það ferli sé nauðsynlegt að skoða betur,“ segir í fréttatilkynningu frá Framsóknarflokknum.

Í upprunalegu tillögu meirihlutans er farið fram á að einkavæðingarferlið frá 1998-2003 verði borið saman við sölu opinberra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum til úrbóta til framtíðar. Vigdís lagði það fram að tímabilið næði yfir bæði fyrri og seinni einkavæðingu bankanna.

„Á haustdögum 2010 var tekin sú ákvörðun að umsvifalaust voru lánardrottnum Kaupþings og Glitnis afhentir nýju bankarnir. Var þessi ákvörðun tekin án nokkurs faglegs mats, verðmats eða útboðs og án nokkurrar umræðu á Alþingi. Engar breytingar voru gerðar á starfsumhverfi banka og annarra fjármálafyrirtækja eða lögum um fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins síðla árs 2009,” segir m.a. í breytingartillögu Vigdísar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert