Vindrafstöðvarnar tvær sem Landsvirkjun hyggst koma upp í nágrenni Búrfellsvirkjunar byrja væntanlega að framleiða orku í byrjun nýs árs.
Í umfjöllun um þessar framkvæmdir í Morgunblaðinu í dag segir, að búið sé að steypa undirstöður beggja myllanna og er stefnt að því að reisa möstrin um miðjan næsta mánuð.
Vindrafstöðvarnar eru liður í rannsókna- og þróunarverkefni Landsvirkjunar sem gengur út á að athuga hagkvæmni slíkra stöðva hér á landi. Landsvirkjun hefur látið mæla vindstyrk á nokkrum stöðum á landinu og tekur einnig þátt í norrænu verkefni, Ísvindum, með nokkrum íslenskum stofnunum. Ef þessar tvær stöðvar reynast vel er hugmyndin að koma upp fleiri vindmyllum við Búrfell og hugsanlega einnig við Blönduvirkjun.