„Ef það verður gengið lengra en við þolum,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar, um mögulega nauðasamninga föllnu bankanna, „þá blasir við hörmuleg sviðsmynd vegna viðvarandi þrýstings á gengi krónunnar.“
Að sögn Árna Páls er „mjög mikilvægt“ að ekki verði kláraðir nauðasamningar Glitnis og Kaupþings við óbreyttar aðstæður þar sem ekki sé búið að leggja mat á hver sé greiðslugeta íslenska þjóðarbúsins í erlendri mynt, horft fram í tímann.
Í fréttaskýringu um þetta mál í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag tekur Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, í sama streng og segir „mjög varasamt þegar reynt er að láta í veðri vaka að þetta sé ekki hættuleg staða sem við stöndum frammi fyrir“.
Að mati Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors við HÍ, er „út í hött“ að halda því fram að íslenska þjóðarbúið glími aðeins við endurfjármögnunarvanda, eins og Seðlabankinn hefur haldið fram, en ekki skuldavanda. Það muni taka langan tíma að greiða niður skuldirnar.