Pírataflokkurinn hefur gefið út grunn stefnumörkun fyrir það sem flokkurinn stendur fyrir.
Birgitta Jónsdóttir er í forsvari fyrir flokkinn og hún segir það hafa komið sér á óvart hversu mikinn hljómgrunn hugmyndirnar hafa fengið þrátt fyrir að lítið hafi verið gert í að auglýsa flokkinn.
Hún segir réttindi fólks á netinu verulega skert. „Það er mikil vöntun á pólitísku afli sem höfðar til ungs fólks sem á lögheimili á netinu,“ segir Birgitta.
„Við erum búin að leggja ofboðslega vinnu í samþykktirnar, enda voru þar ekki miklar gloppur til þess að lagfæra þegar kom að því að samþykkja þær. Fundurinn sem við höfðum um samþykktirnar var afskaplega stuttur og allir samþykktu tillögurnar strax,“ segir Birgitta.
Hér má sjá stefnumörkun flokksins.
Gagnrýnin og upplýst stefna
1.1 Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og upplýstar ákvarðanir.
1.2 Píratar móta stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru.
1.3 Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun.
1.4 Réttur einstaklinga til að verða upplýstir skal aldrei skertur.
Borgararéttindi
2.1 Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
2.2 Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra.
2.3 Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að
þau séu ekki skert.
2.4 Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum,
og að réttur hvers og eins sé jafn.
Friðhelgi einkalífsins
3.1 Friðhelgi einkalífsins snýst um vernd hinna valdaminni frá
misbeitingu valds hinna valdameiri.
3.2 Píratar telja að allir einstaklingar eigi rétt á friðhelgi í sínu einkalífi.
3.3 Til friðhelgi telur réttur til leyndar, nafnleysis, og sjálfsákvörðunar.
3.4 Leynd á aldrei að ná lengra en þörf er til að vernda einstaklinginn,
en aldrei svo langt að það hafi áhrif á aðra einstaklinga.
3.5 Nafnleysi hefur ekki þann tilgang að firra einstaklinga ábyrgð.
Gegnsæi og ábyrgð
4.1 Gegnsæi snýst um að að hinir valdaminni geti ástundað eftirlit
gagnvart hinum valdameiri.
4.2 Píratar telja gegnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé
upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.
4.3 Upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi.
4.4 Upplýsingar skulu vera aðgengilegar á opnum gagnasniðum, sem hentugastar eru gagnvart notagildi upplýsinganna.
4.5 Til að einstaklingur geti borið ábyrgð þarf hann að hafa getu til að taka ákvarðanir.
4.6 Píratar telja að allir hafi óskoraðan rétt til aðkomu að ákvörðunum sem varða eigin málefni og vitneskju um það hvernig slíkar ákvarðanir hafi verið teknar.
Upplýsinga- og tjáningarfrelsi
5.1 Takmörkun á frelsi fólks til að safna og miðla upplýsingum er
óásættanleg, nema til verndar borgararéttindum einstaklinga.
5.2 Takmörkun á frelsi fólks til að tjá sig er óásættanleg, nema til
verndar borgararéttindum einstaklinga.
Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur
6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um mál-efni sem varða þá.
6.2 Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gegnsærrar stjórnsýslu.
6.3 Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.
Alþjóðleg hreyfing
„Pirate Party er alþjóðleg pólitísk hreyfing sem var stofnuð í Svíþjóð 2006, í kjölfarið hafa verið stofnaðar píratahreyfingar í yfir 60 löndum. Frá stofnun hefur píratahreyfingin fengið aukið vægi á meðal almennings vegna þess að flestir nota netið í dag í sínu daglega lífi og eiga sitt annað lögheimili þar. Löggjöf um stafrænt frelsi hefur ekki haldist í hendur við þann veruleika að persónulegar upplýsingar og netnotkun spila sífellt stærra hlutverk í lífi hvers og eins. Því er mikilvægt að verndun mannréttinda í net- og raunheimum haldist í hendur. Pírata-hreyfingin er vettvangur fyrir alla sem vilja taka þátt í að móta samfélag sitt í raun- og netheimum og ræða breytingar á frjálsan og óheftan hátt með aðstoð tækninnar fyrir opnum tjöldum,“ segir í fréttatilkynningu.