Vildi víkka út tjaldhæla flokksins

Jónína Benediktsdóttir, athafnakona.
Jónína Benediktsdóttir, athafnakona. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

„Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég er mjög umdeild og það er náttúrlega búið að ráðast að persónu minni opinberlega í svo mörg ár. En mitt fylgi, það fólk sem vill sjá mig og heyra mína rödd á þingi, er ekki í Framsóknarflokknum endilega. Þess vegna bauð ég mig fram og vildi vinna með Vigdísi [Hauksdóttur, alþingismanni,] til þess að við gætum náð inn fólki sem bara treystir ekki orðið nokkrum einasta manni.“

Þetta segir Jónína Benediktsdóttir athafnakona, en hennar er ekki getið í tillögu kjörnefndar að framboðslistum Framsóknarflokksins í Reykjavík sem lagðir verða fram á aukakjördæmisþingi flokksins sem fram fer á morgun. Tillagan var kynnt á fundi á vegum framsóknarmanna í  Reykjavík sem fram fór í gærkvöldi þar sem frambjóðendur kynntu sig og áherslur sínar. Jónína tilkynnti framboð í fyrsta sæti listans í Reykjavíkurkjördæmi suður í lok október.

„Ég er að vinna í Framsóknarflokknum. Ég er í Framsóknarfélagi Reykjavíkur og styð bara mitt félag. Ég styð alla þá sem eru þarna að fara fram. En þetta var mín hugmynd, að víkka út tjaldhælana fyrir Framsóknarflokkinn. Mér var mjög vel tekið á fundinum í gær þegar ég hélt mína ræðu,“ segir Jónína og bætir því við að hún verði ekki sökuð um að vera í einhverri fýlu vegna málsins.

„En aukakjördæmisþingið fer fram á morgun og þar geta fundarmenn lagt fram breytingatillögur við tillögu kjörnefndar og sett aðra á listann og það er það lýðræði sem við eigum að virða. Þetta er náttúrlega gamalgróinn flokkur en ég vil sjá breytingar í Framsóknarflokknum með nýju fólki,“ segir hún ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert