Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið stóð til kl. hálf þrjú í nótt, en þá var fundi slitið. Umræðan hafði þá staðið yfir frá því um 15:30 í gær. Önnur umræða um frumvarpið hófst á fimmtudag í síðustu viku og mun hún halda áfram í dag að loknum umræðum um störf þingsins sem hefjast kl. 13:30.
Nær allir sem tóku til máls um frumvarpið í gær eru þingmenn úr röðum stjórnarnandstöðunnar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu skömmu eftir miðnætti í nótt, að stjórnarþingmenn hefðu strax á fyrsta degi sakað stjórnarandstæðinga um málþóf.
„Við höfum tekið eftir því hér í dag að stjórnarliðar hafa ekki séð ástæðu til þess að taka mikinn þátt í umræðunni. Maður veltir því fyrir sér þegar umræða um fjárlög er látin standa fram yfir miðnætti hvort það sé til nokkurs að vera að reyna að benda ríkisstjórninni á þá augljósu galla sem eru fjárlögunum. Er ætlunin bara að láta þingmenn tala hér til málamynda? Er virðingin fyrir þinginu ekki meiri en sú en að menn ætla bara að láta menn tala hér inn í nóttina til þess að afgreiða frá án þess að spá nokkuð í það hvað menn hafa fram að færa,“ spurði Sigmundur Davíð og bætti við að það væri verulegt áhyggjuefni ef ríkisstjórnin ætlaði að nálgast þingið á þennan hátt.