Umræður fara nú fram á Alþingi um störf þingsins. Þar spurði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvort þau 2.200 störf sem kynnt voru í gær fyrir langtímaatvinnuleitendur væru til viðbótar þeim 29.000 störfum sem ríkisstjórnin hefði lofað hingað til.
„Það er gott að stjórnin taki höndum saman við aðila vinnumarkaðarins, en það sem ég hef áhyggjur af í þessum efnum er að þessi störf verða ekki til vegna verðmætasköpunar,“ sagði Ragnheiður Elín.
„Þetta eru störf sem verið er að skapa á kostnað skattborgaranna sem úrræði,“ sagði Ragnheiður Elín og sagðist vilja gefa ríkisstjórninni ráðleggingar.
„Látið þær atvinnugreinar sem pluma sig í friði. Þær geta þá verið tilbúnar til að skapa störf, sem eru miklu fleiri en þessi 2.200 störf. Látið atvinnulífið í friði, þá mun það skapa störfin,“ sagði Ragnheiður Elín.