Árið 2010 voru meðallaun á Íslandi rétt undir meðaltali Evrópusambandsríkjanna. Þegar horft er til starfsstétta voru stjórnendur, sérfræðingar, tæknar og skrifstofufólk með laun undir meðaltali samsvarandi hópa í Evrópusambandinu en laun þjónustu- og sölufólks, iðnaðarmanna og iðnverkafólks, véla- og vélgæslufólks og ósérhæfðs starfsfólks voru yfir meðaltali.
Vinna lengur en aðrir
Vinnutími er almennt langur á Íslandi miðað við ríki Evrópusambandsins og er hlutfall yfirvinnustunda hærra á Íslandi en í nokkru öðru landi sem rannsóknin nær til, eða 8%, þrátt fyrir að hafa lækkað úr 11% frá síðustu rannsókn árið 2006. Þá er hlutfall óreglulegra greiðslna af árslaunum að jafnaði lægra á Íslandi en í öðrum löndum.
Þetta eru niðurstöður launarannsóknar sem Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, stendur fyrir á meðal aðildarþjóða sinna auk EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Sviss. Þá skila einnig Króatía, Makedónía og Tyrkland gögnum í rannsóknina.
Rannsóknin er framkvæmd á fjögurra ára fresti og var viðmiðunarár síðustu rannsóknar árið 2006.