Viðræður við verktaka ganga vel

Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng. mbl.is

„Það er góður gangur í viðræðunum og mér sýnist að skrifað verði undir samninga fljótlega á nýju ári,“ segir Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, í samtali við Vikudag um samningaviðræður við verktaka Vaðlaheiðarganga.

Fram kemur á vef Vikudags, að ÍAV hafi átt lægsta tilboð í gerð ganganna ásamt svissneska fyrirtækinu Matri, tilboðið hljóðaði upp á 8,8 milljarða króna. Samkvæmt nýlegu svari innanríkisráðherra er áætlað að uppfærð kostnaðaráætlun við gerð ganganna sé um 11,4 milljarðar króna.

Áætlaður starfsmannafjöldi við gerð gangnanna liggur ekki nákvæmlega fyrir. Miðað við sambærileg verkefni er búist við að heildarfjöldi verði um 80 manns að jafnaði í þrjú og hálft ár.

Ekki liggur fyrir hve margir erlendir starfsmenn vinna við verkið, en miðað við hugmyndir verktaka gætu þeir orðið um 25 í tvö ár.

Pétur segir líklegt að framkvæmdir hefjist með vorinu.

„Miðað við ganginn í viðræðunum undanfarna daga er ég bjartsýnn á að svo verði. Það tekur verktakann eðlilega nokkurn tíma að útvega nauðsynleg tæki og ráða til sín mannskap. Þetta er sem sagt allt saman í eðlilegu farvegi, enda búið að ganga frá öllum samningum við ríkið,“ segir hann í samtali við Vikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert