Íbúar fjölbýlishúss í Hamraborg í Kópavogi, sem báðu nágranna sína um að stemma stigu við partíhávaða í nótt, fengu nokkuð aðrar viðtökur en þeir væntu. Nágrannarnir brugðust hinir verstu við og réðust á fólkið.
Lögregla fékk tilkynningu um atvikið skömmu eftir klukkan hálftvö í nótt.
Er lögregla kom á staðinn höfðu þeir sem réðust á fólkið flúið af vettvangi. Flytja þurfti þá sem fyrir árásinni urðu á slysadeild, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að nóttin hafi verið eins og helgarnótt, margt fólk hafi verið í miðbænum og nokkuð hafi verið um tilkynningar tengdar ölvun og veisluglaumi.