Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða til að byggja upp ýsustofninn, að mati Arnar Pálssonar, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann að smábátasjómenn væru langt komnir með veiðiheimildir í ýsu og ekki væri verjandi að leigja ýsukvóta á yfir 300 kr. kílóið. Hann segir að smábátasjómenn hefðu fengið þá skýringu á lítilli úthlutun aflaheimilda í ýsu að nýliðun undanfarinna fjögurra ára hefði ekki tekist sem skyldi.
„Ef svo er þá finnst mér einkennilegt að Hafrannsóknastofnunin skuli ekki reyna fleiri aðferðir en minnkun aflaheimilda til þess að bregðast við svo alvarlegum tíðindum,“ sagði Örn. Hann nefnir sérstaka verndun ýsuárganga sem eru slakir að mati stofnunarinnar.