Árni Páll Árnason og Guðbjartur Hannesson verða einir í kjöri til formanns Samfylkingarinnar, en framboðsfrestur rann út á hádegi.
Nýr formaður Samfylkingarinnar verður kosinn í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu allra skráðra félaga dagana 18.- 28. janúar. Hægt er að fá atkvæðisseðil sendan í bréfpósti. Þeir sem vilja ganga í flokkinn og taka þátt í formannskjöri hafa frest til þess til 11. janúar.
Kosið verður um öll önnur embætti í forystu Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem fram fer 1.-3. febrúar. Á fundinum verður tilkynnt um úrslit í formannskjöri.
Árni Páll og Guðbjartur voru báðir kjörnir alþingismenn árið 2007 og eru oddvitar flokksins í sínum kjördæmum, Árni Páll í SV-kjördæmi og Guðbjartur í NV-kjördæmi. Þeir hafa báðir setið í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Árni Páll var ráðherra 2009-2011, en Guðbjartur hefur verið ráðherra frá 2010.
Árni Páll er 46 ára gamall, en Guðbjartur er 62 ára.