Snjóþungt umhverfis Akureyri

Mannhæðaháir skaflar finnast víða á Akureyri, en lögregla beinir þeim …
Mannhæðaháir skaflar finnast víða á Akureyri, en lögregla beinir þeim tilmælum til ökumanna að fara ekki vegina í vestur. Skapti Hallgrímsson

Æskilegt er að Akureyringar ferðist ekki að ráði út fyrir bæjarmörkin í dag samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Verst er veður vestan við Akureyri, þar er stórhríð sem bætist sífellt í, en á Akureyri eru norðan 4 metrar á sekúndu með talsverðri úrkomu.

Að sögn vakthafandi lögreglumanns hjá lögreglunni á Akureyri er mikið hvassviðri en enginn frekari mokstur eða rýmingar hafa átt sér stað. Illfært er innanbæjar en með öllu ófært á aðra staði á nágrenni Akureyrar. Kallað var eftir aðstoð björgunarsveita við að losa allnokkra bíla sem sátu fastir á Öxnadalsheiði.

Vegir vestan við Akureyri eru lokaðir en vel búnir jeppar komast með herkjum yfir Víkurskarð samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Lögreglan beinir þeim tilmælum til ökumanna að leggja ekki leið sína í vesturátt frá Akureyri. Kólna á þegar líður á daginn sem eykur á hálku.

Í nótt rigndi á láglendinu fyrir norðan sem lækkaði snjóhæð umtalsvert, en eins og áður segir eru snjóskaflar nokkrir metrar á hæð fyrir utan þéttbýli.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert