Þak að hrynja á fjósi með 70 gripum

Útköllum hefur fjölgað hjá björgunarsveitum eftir því sem líður á …
Útköllum hefur fjölgað hjá björgunarsveitum eftir því sem líður á daginn. mbl.is/Landsbjörg

Björgunarfélag Ísafjarðar lagði af stað yfir til Önundarfjarðar nú í hádeginu þar sem þak er að hrynja á fjósi. Ellefu manna sveit fór til aðstoðar, en um 70 gripir eru í fjósinu.

Í fyrstu voru björgunarsveitir á Flateyri og Ísafirði kallaðar út, en ekki þótti ráðlagt að senda björgunarsveitina á Flateyri af stað, ef aðstoðar hennar þyrfti á Flateyri þar sem veður er mjög vont líkt og annars staðar á Vestfjörðum, samkvæmt því sem fram kemur á fréttaveitunni Vestur.is.

Sjór flæddi inn á mitt gólf

Björgunarsveitir hafa verið að störfum víða um land í morgun. Í Bolungarvík hefur björgunarsveitin Ernir elst við fjúkandi járnplötur, lausan skjólvegg og byrgt glugga fyrir veðurhamnum. Einnig slitnuðu festingar á flotbryggju í höfninni.

Í Stykkishólmi losnuðu þakplötur af tveimur húsum en annars hefur verið tiltölulega rólegt hjá björgunarfólki þar. Aðra sögu er að segja frá Hvammstanga þar sem björgunarsveitin Húnar stendur í ströngu við að fergja lausa muni sem fjúka og sinna öðrum aðstoðarbeiðnum. Einnig hafa verið kallaðar út sveitir á Skagaströnd og Blönduósi.

Björgunarsveitin á Rifi varð fyrir tjóni í morgun þegar fylla kom yfir sjóvarnargarð í höfninni og nýtt björgunarsveitarhús, þannig að hurð brotnaði og sjór flæddi inn og bar með sér grjót inn á mitt gólf.

Minna en björgunarsveitir bjuggust við

Súlur á Akureyri aðstoðuðu bíla sem flytja dagblöðin á Norðurland í Bakkaselsbrekku í morgun. Þar var mikil ófærð og grafningur og heiðin alveg lokuð. Hjálparsveit skáta í Aðaldal sinnti aðstoð við Landsnet.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg eru björgunarsveitir á vestanverðu landinu sammála um að minna hafi verið um að vera en þær áttu von á. Mikið hefur þó bætt í vindinn undanfarna klukkustund og er víða orðið snarvitlaust veður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert