Samninganefnd Landspítalans og fulltrúar hjúkrunarfræðinga munu hittast í kvöld á formlegum fundi um endurskoðun stofnanasamnings. Elsa Friðfinnsdóttir formaður félags hjúkrunarfræðinga telur mikilvægt að samningsaðilar nái fljótt saman svo hjúkrunarfræðingar bindi sig ekki annars staðar.
Hún segist búast við því að á fundinum verði rætt hvort Landspítalinn hafi svigrúm til þess að koma til móts við hjúkrunarfræðinga. „Við erum að velta upp möguleikum sem við teljum að geti bæði rúmast inni í því sem Landspítalinn getur tekið á sig og þannig að hjúkrunarfræðingar geti hugsað sér að vera áfram og dragi uppsagnir til baka,“ segir Elsa.
Hún segir enn mikinn hita í starfsfólki en þegar hafa um 280 hjúkrunarfræðingar sagt starfi sínu lausu hjá spítalanum. „Ég veit það að sumir hjúkrunarfræðingar eru að hugsa til næstu mánaðarmóta og munu leggja inn uppsögn ef ekkert gerist í þessum málum,“ segir Elsa. Hún segist ekki hafa tilfinningu fyrir því hvort um stóran hóp sé að ræða en þessar upplýsingar hafi hún fengið eftir samtöl við trúnaðarmenn. „Þess vegna viljum klára þetta sem fyrst. Öðrum kosti er hætt við því að fleiri bætist við eða að fólk sem þegar hefur sagt upp muni festa sig annars staðar,“ segir Elsa.