„Ánægður, svangur, syfjaður.“ Svona lýsti Sigurður Ingi Einarsson, garðyrkjunemi og sjálflærður áhugamaður um kannabis, áhrifum af kannabisneyslu á málþingi um geðræn áhrif af neyslu kannabis. Hann sagðist ekki draga skaðleysi þess í efa en mikilvægt væri að efla fræðslu og umræðu um kannabis.
Sigurður Ingi tók fram að hann væri hvorki læknir né vísindamaður. Hann sagðist talsmaður hópsins Kannabis - fræðum okkur sem stofnaður var seint á síðasta ári. „Markmið hópsins er að ýta undir málefnalega umræðu um kannabis og fíkn almennt. Það þarf að auka magn upplýsinga.“
Meðal þess sem kom fram í erindi Sigurðar er að eituráhrif kannabis væru með því minnsta sem þekkt væri þegar kæmi að vímuefnum. „Það þyrfti að reykja nokkur hundruð kíló á hálftíma og þá væri nú líklegra að viðkomandi myndi hreinlega kafna, frekar en að deyja úr eitrun.“
Hann sagði ljóst að kannabisneysla gæti valdið varanlegum neikvæðum áhrifum en þá aðallega hjá þeim sem byrjuðu ungir, og það vildi enginn. „Börn eiga ekki að reykja gras og raunar eiga börn - sem eru að þroskast - ekki að vera að neinu skaðlegu, hvort sem það er að borða sykur eða drekka orkudrykki. Það þarf einfaldlega að auka fræðslu.“
Hann sagði bannstefnu í málaflokknum valda miklum samfélagsskaða. Svarti markaðurinn og glæpahópar hagnist mest af stefnunni. „Dílerinn spyr ekki um aldur. Þannig er erfiðara að halda þessum efnum frá ungu fólki.“ Þá sagði hann innflutt hass oft drýgt með „óþverra“ á borð við gler, gifs og jafnvel blý.
Sigurður Ingi spurði að lokum hvort stjórnvöld næðu markmiðum sínum með bannstefnunni eða hvort ekki þyrfti að fara endurhugsa þessi mál.
Annar framsögumaður sem gagnrýndi bannstefnuna var Jóhannes Stefánsson, meistaranemi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Jóhannes reyndar gerði strax fyrirvara á máli sínu og sagðist ekki styðja fíkniefnaneyslu og hann hefði sjálfur ekki áhuga á henni. Hann hefði hins vegar áhuga á löggjöfinni þegar kæmi að fíkniefnamálum.
Jóhannes skrifaði BA-ritgerð sína í lögfræði um refsistefnu stjórnvalda í fíkniefnamálum og hvort hún hefði náð þeim árangri sem henni var ætlað. „Í mjög stuttu máli má segja að stefnan hafi verið sett til að koma í veg fyrir neyslu, og að það hafi mistekist.“
Þá bað hann fundargesti að svara þeirri spurningu hvers vegna áfengi væri ekki ólöglegt. „Það er óumdeilt að það er mjög skaðlegt vímuefni. Áfengisneysla getur leitt til minnistaps, skorpulifrar og er þekktur áhrifavaldur í banaslysum í umferðinni, mörgum líkamsárásarmálum og stórum hluta morðmála. Þó að menn viti þetta er áfengi samt löglegt. Og ef menn geta svarað þessari spurningu, af hverju áfengi er löglegt og af hverju það ætti ekki að vera ólöglegt, þá geta menn svarað sömu spurningu um öll vímuefni.“
Hann sagði bann ekki draga úr neyslu fíkniefna. Kenningin væri sú að ef það lægi refsing við háttsemi þá mundi refsingin fæla menn frá því að viðhafa sömu tilteknu háttsemi. Refsingar hefðu þyngst verulega í fíkniefnamálum þannig að það ætti að vera minni neysla. Svo væri hins vegar ekki og í raun væri þessu þveröfugt farið.
Jóhannes birti einnig tölur um lögleg fíkniefni, þ.e. áfengi og tóbak. Hvað varðar ölvunardrykkju sextán ára ungmenna árið 1997 þá höfðu 38% svarenda orðið drukknir síðustu 30 daga fyrir könnunina. Árið 2012 var hlutfallið 7%. Og árið 1995 reykti 21% sextán ára ungmenna vindlinga daglega. Árið 2012 var hlutfallið 3%.
Hann sagði þetta árangur af forvarnarstarfi og fræðslu. Íslendingar væru komnir vel á veg með að útrýma dagreykingamönnum í yngstu aldurshópum og væru langt undir meðaltali þjóða sem við bærum okkur saman við. Á meðan værum við Norðurlandameistarar í kannabisreykingum, og aldrei hefði verið jafn mikil kannabisneysla meðal ungmenna.
„Getur verið að einhver umdeildasta löggjöf samtímans sé byggð á tilfinningum en ekki staðreyndum? Ef það er augljóst að árangur laganna er alls ekki sá sem hann á að vera, hversu lengi á að þráast við?“
Hann benti á að vindlinga mætti kaupa í nánast hverri verslun og áfengi í verslunum ÁTVR. Þegar svo talað væri um aðra stefnu í fíkniefnamálum væri á það bent að aðgengi mundi aukast svo mikið. „Það er ekki rétt. Ég spyr, hvernig er hægt að auka aðgengi að kannabisefnum meira? Lögleg vímuefni sæta neyslustýringu og aðgangshindrunum sem ólögleg vímuefni gera ekki. Fíkniefnasalar hafa engan sérstakan afgreiðslutíma, bjóða upp á heimsendingu og lán. Ég hef ekki heyrt um neinn sem hefur lent í handrukkun af hálfu ÁTVR.“
Að lokum spurði Jóhannes fundargesti hvort það væri þá ekki bara í lagi banna bjórinn með boltanum, rauðvínið með steikinni og einfaldan sterkan niðri í bæ.