Frumvarpið „síst til sátta fallið“

Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Einar K. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef haft mjög takmarkaðan tíma til þess að líta á frumvarpið en það sem ég hef séð líst mér illa á. Það er augljóst mál að þetta frumvarp er gamalt vín á nýjum belgjum. Þarna ganga aftur gamlir kunningjar sem voru metnir af sérfræðingum sem komust að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að þessi leið sem ætlunin væri að feta myndi leiða til lakari og veikari sjávarútvegs sem myndi gefa þjóðinni minni heildarafrakstur.“

Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða sem lagt var fram á Alþingi í dag af Steingrími J. Sigfússyni, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að það hafi meðal annars verið samið með hliðsjón af tillögum frá svonefndum trúnaðarmannahópi sem í voru fulltrúar allra þingflokks fyrir utan Hreyfinguna en Einar átti sæti í hópnum.

Hann segir að í fljótu bragði virðist sem tekið hafi verið tillit til tillagna trúnaðarmannahópsins að einhverju leyti en í vegamestu tillögunni sé það hins vegar ekki gert enda sé ætlunin með skipulögðum hætti að veikja aflahlutdeildir þeirra sem hafa í dag fengið úthlutað kvóta sem muni bitna hart á nýrri útgerðum eins og bent hafi verið á við meðferð síðasta frumvarps ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórn fiskveiða.

„Þannig að mér sýnist í fljótu bragði að þetta frumvarp sé sama markinu brennd og hin fyrri og sé síst til sátta fallið né heldur að það muni stuðla að þeirri hagkvæmi sem við ætlumst til að sjávarútvegurinn skili okkur og verður að skila okkur til þess að standa undir góðum lífskjörum í landinu,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka