Lögreglan á Suðurnesjum hefur á síðustu dögum handtekið sjö ökumenn, sem óku undir áhrifum fíkniefna. Um var að ræða sex karlmenn og eina konu.
Kannabislyktin af einum þeirra var beinlínis yfirþyrmandi þegar hann var færður inn í lögreglubifreið. Við húsleit á heimili annars ökumanns fundu lögreglumenn kannabisefni í skúffu, poka með hvítu efni í ísskáp, stera og steratöflur.
Þriðji ökumaðurinn, af þessum sjö, var með kannabis á sér þegar hann var handtekinn. Í fjórðu bifreiðinni, sem stöðvuð var vegna fíkniefnaaksturs ökumanns, reyndist annar tveggja farþega vera með kannabis í fórum sínum.
Ökumennirnir sjö, sem handteknir voru, eru á aldrinum frá sautján ára til tæplega þrítugs.