Fulltrúar frá Náttúrustofu Vesturlands munu fylgjast grannt með fuglalífi í Kolgrafafirði á næstunni. Samkvæmt áætlunum verður gengið um fjörur fjarðarins á fimm daga fresti, m.a. um helgina.
„Við göngum um og munum m.a. notast við sjónauka og athuga hvort við komum auga á grútarblauta fugla,“ segir Róbert Arnar Stefánsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands.
Hann segir að gríðarlegur fjöldi fugla geti torveldað eftirlitsferðirnar, eftir því sem fleiri fuglar séu á svæðinu því erfiðara verði að koma auga á þá grútarblautu ef einhverjir eru.