Stjórnlagamálið ekki hugsað til enda

Salvör Nordal.
Salvör Nordal. Árni Sæberg

„Það eru mér mikil vonbrigði hvernig málið hefur þróast. Þá horfi ég einkum til þess hvernig þingið hefur haldið á málinu,“ segir Salvör Nordal, fyrrverandi formaður stjórnlagaráðs, og vísar til þess að skort hafi heildarsýn á það hvernig bæri að ljúka málinu. Hún leggur til millileið í málinu.

„Það hefur tekið alltof langan tíma að fá álit og heildstæða úttekt á frumvarpinu, eins og við í stjórnlagaráði töluðum um þegar við skiluðum okkar tillögum sumarið 2011. Ef þetta hefði legið fyrir fyrr hefði málið farið í annan farveg. Nú er orðinn lítill tími til stefnu.

Ég hef áður lýst því yfir að ég tel að ræða ætti einstaka efnisþætti og reyna að komast að samkomulagi um þá þannig að það væri þá að minnsta kosti mögulegt að ganga frá einhverjum þáttum frumvarpsins á þessu þingi þótt það næðist ekki að fara yfir frumvarpið allt saman. En ég held að sá möguleiki sé líka að renna frá þingmönnum.

Fram kom í byrjun vikunnar að 15 þingfundadagar væru eftir og það er ekki langur tími. Þeim má vissulega fjölga en ég hef ekki trú á því að þingið sitji nánast fram að kosningum. Eins og málið blasir við mér utan frá séð er mikil vinna eftir. Það þarf að skoða álit Feneyjanefndarinnar mjög vandlega. Menn þurfa að taka þau álit sem komið hafa alvarlega og skoða þau vandlega. Margar athugasemdir eru þess eðlis að það þarf að leggjast yfir þær og meta hvernig hægt er að svara þeim eða koma til móts við þá gagnrýni sem þar kemur fram.“

Steyti ekki endanlega á skeri

- Hvaða væntingar hefurðu um framhald málsins?

„Ég vonast til þess að menn geti að minnsta kosti lent málinu á þessu þingi þannig að það verði hægt að halda áfram með það á næsta þingi. Ef maður lítur á möguleikana í stöðunni þá vissulega getur það gerst að málið lendi í algjörum ógöngum þannig að stjórnmálamenn treysti sér ekki til að finna því farveg á nýju þingi.

Það er mjög mikilvægt að málið steyti ekki endanlega á skeri. Það er því spurning hvort hægt væri að ná samkomulagi milli allra flokka um áframhaldandi starf í málinu á næsta kjörtímabili með skuldbindandi ályktun. Tíminn líður hratt. Miðað við allt það sem þingið þarf að afgreiða fyrir þinglok sé ég ekki að það geti afgreitt stóra hluta frumvarpsins.“

Hefði viljað dýpri umræðu

Hvernig finnst þér þjóðfélagsumræðan hafa verið?

„Auðvitað hefði maður viljað fá miklu dýpri og meiri umræðu um einstaka efnisþætti. Mér virðist sem sú umræða eigi eftir að fara fram. Eins og málið var lagt upp í störfum stjórnlagaráðs var lögð áhersla á opið ferli og að hin almenna þjóðfélagsumræða myndi halda áfram eftir að stjórnlagaráð lyki störfum. Einn veikleiki við þennan feril allan, sem er að koma mjög skýrt í ljós núna, er að í upphaflegu lögunum um stjórnlagaþingið var ekki skilgreint og ákveðið hvað tæki við þegar stjórnlagaráð væri búið með sína vinnu. Þar sem ekki lá fyrir frá upphafi hvað tæki við hefur of mikill tími síðan farið í að ákveða næstu skref.

Síðan hafa verið átök um öll þessi skref á leiðinni og umræðan hefur því miklu meira snúist um þau fremur en efnisleg atriði. Ég talaði um það síðasta vor þegar ákveðið var að kalla stjórnlagaráð saman að þá hefði verið mikilvægt að ákveða jafnframt hvernig ætti að ljúka málinu og að menn sæju fyrir sér hvernig hægt væri að komast á endastöð. En það hefur ekki verið gert og það hefur verið þras um ferilinn allan tímann. Þetta hefði þurft að útfæra og hugsa frá upphafi, að hugsa málið til enda. Þeir sem um þetta mál véla þurfa nú að leggja það niður fyrir sér hvernig þeir ætla að lenda þessu máli.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert