Ógnuðu stúlku með sprautunál

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ung kona og stúlka á táningsaldri voru dæmd í 6 0g 9 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að hafa ógnað stúlku með blóðugri sprautunál, rænt hana og notað greiðslukort hennar í Bónus. Þær játuðu báðar brot sín.

Tvímenningarnir réðust saman að stúlkunni í febrúar 2012, kröfðust þess að hún léti af hendi 66°N úlpu sem hún klæddist og ógnuðu henni með blóðugri sprautunál. Hún hljóp á brott en missti við það skólatösku sína sem konan hafði á brott með sér.

Í henni voru skólabækur, lyklar og debetkort stúlkunnar, samtals að verðmæti um 12.000 kr. Konan fór svo sama morgun með debetkort stúlkunnar í Bónus og greiddi þar fyrir vörur að andvirði 5.605 króna. 

Unga konan, sem er 22 ára, hefur áður verið dæmd fyrir þjófnað, fjársvik og ölvunarakstur og jafnframt verið svipt ökurétti í tvö ár. Hún var í dag dæmd í 9 mánaða fangelsi, en refsing hennar var ákveðin sem hegningarauki og dæmd í einu lagi.

Stúlkan sem var í slagtogi með henni var aðeins 16 ára þegar brotið var framið. Hún hafði ekki áður sætt refsingu. Hún var í dag dæmd í 6 mánaða fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert