Flestar leiðir ófærar

Mikil ófærð er á höfuðborgarsvæðinu og flestar aðalleiðir og hliðargötur ófærar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að halda sig heima. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.

Björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið eru með allt sitt lið úti en eiga í erfiðleikum með að komast um vegna fastra ökutækja.

Ekkert ferðaveður á Reykjanesbraut og Hvalfjarðargöngin lokuð til suðurs

Ófærð og slæmt skyggni er á Reykjanesbraut og ekkert ferðaveður.

Vonskuveður er á Suðurlandi og víðast hvar ekki ferðaveður. Reynisfjall er ófært.

Bæði Hellisheiði og Þrengsli eru lokuð og Suðurstrandarvegur er ófær. Lokað er fyrir umferð um Kjalarnes og Hvalfjarðargöngunum til suðurs hefur verið lokað.

Það er hálka og mikil ofankoma á höfuðborgarsvæðinu, víðast hvar er mjög blint og fólk beðið að vera ekki á ferðinni nema það sé bráðnauðsynlegt. Stórhríð og flughálka er á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Glórulaus stórhríð við Hafnarfjall

Versnandi veður er á Vesturlandi. Stórhríð er við Akrafjall og í Hvalfirði, og eins er glórulaus stórhríð við Hafnarfjall. Stórhríð er víða á Snæfellsnesi, annars er víða nokkur hálka á Vesturlandi ásamt skafrenningi og ofankomu.

Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður, fjallvegir eru flestir ófærir og víða þungfært í byggð. Mjög slæmt veður er einnig á Norðurlandi. Stórhríð er milli Blönduóss og Skagastrandar, á Þverárfjalli og á Tröllaskaga.

Öxnadalsheiði er ófær og Víkurskarðið líka. Stórhríð og þungfært á leiðinni út í Grenivík, stórhríð er í Ljósavatnsskarði og á Tjörnesi og óveður áfram þaðan austur á Raufarhöfn. Ófært er bæði á Hófaskarði og Brekknaheiði.

Það er þungfært og stórhríð á Möðrudalsöræfum. Stórhríð er einnig á Vopnafjarðarheiði. Vatnsskarð eystra er þungfært.

Vegir á Austurlandi eru annars færir en þar er víða snjóþekja eða hálka og einhver ofankoma eða skafrenningur.

Óveður er í Öræfum og ekki ferðaveður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka