Þingfundi Alþingis lauk á ellefta tímanum í kvöld. Til nýs fundar er boðað kl. 10.30 í fyrramálið. Á dagskrá fundarins sem birt er á vef Alþingis er ekki að finna vantrausttillögu Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar.
Eins og greint var frá á mbl.is lagði Þór Saari fram vantrausttillögu sína öðru sinni í dag. Hann fór þess einnig á leit við forseta Alþingis að tillagan yrði sett á dagskrá á morgun, fimmtudag. Svo virðist því sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hafi ekki orðið við þeirri ósk.
Meðal þess sem er á dagskrá eru frumvörp um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning, slysatryggingar almannatrygginga, lánasjóð íslenskra námsmanna og kísilver í landi Bakka.