Mikið um ölvun og læti í nótt

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

11 manns sitja í fangageymslum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina, flestir vegna mála sem tengjast ölvun við akstur eða ólátum í skemmtanalífinu. Að sögn lögreglu var mikið um ölvun og margar tilkynningar um hávaða í heimahúsum.

Rétt eftir klukkan 22 í gærkvöldi var ölvaður maður handtekinn við skemmtistað í austurborginni. Maðurinn var ekki viðræðu hæfur, að sögn lögreglu, og því vistaður í fangageymslu á meðan hann sefur úr sér vímuna.

Klukkan kortér í tvö í nótt varð umferðaróhapp í miðborginni. Þar var á ferð maður sem grunaður er um ölvun við akstur og var hann handtekinn á staðnum. Að lokinni sýnatöku var maðurinn vistaður í fangageymslu, að sögn lögreglu, þar til hægt verður að ræða við hann.

Um hálfþrjú var lögreglu tilkynnt um mann sem væri að brjóta rúðu við Hverfisgötu. Hann reyndist vera í mjög annarlegu ástandi og var handtekinn. Að sögn lögreglu náði maðurinn ekki að valda skemmdum, en hann er vistaður í fangageymslu þar til ástand hans lagast.

Óvelkominn í bíl kýldi eigandann

Klukkan kortér í þrjú í nótt var bíll stöðvaður á Sæbraut, þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Manninum var sleppt lausum að lokinni sýna- og skýrslutöku. Annar bíll var stöðvaður á Miklubraut um klukkustund síðar vegna gruns um vímuakstur. Þeim ökumanni var einnig sleppt eftir sýnatöku.

Þegar klukkan var 24 mínútur gengin í fimm í morgun var maður handtekinn í miðbænum. Hann hafði að sögn lögreglu verið í bíl sem hann átti ekki. Þegar eigandi bílsins kom að honum kýldi maðurinn hann í andlitið. Eigandinn náði að halda manninum þangað til lögregla kom á vettvang. Hann var í mjög annarlegu ástandi og er hann vistaður í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hann.

Laust fyrir klukkan 5 í morgun var svo bíll stöðvaður á Snorrabraut vegna gruns um ölvunarakstur. Ökumanni var sleppt lausum eftir sýnatöku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka