Óvissa er um aðalmeðferð Al Thani-málsins svonefnda eftir að verjendur tveggja sakborninga tilkynntu í gær að þeir létu af störfum sem verjendur í málinu. Héraðsdómari neitaði raunar samdægurs að taka afsögnina til greina.
Aðalmeðferð málsins á að hefjast í Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi fimmtudag.
Ragnar Halldór Hall sem verið hefur verjandi Ólafs Ólafssonar sagðist ekki líta svo á að hann væri verjandi hans nú þrátt fyrir að héraðsdómari hafi í gær svarað afsögn hans með því að segja að verjendum væri óheimilt að segja sig frá málinu. Ragnar sagðist telja að lögskýring dómarans stæðist ekki. Hann var ekki tilbúinn að svara því hvort hann myndi mæta við aðalmeðferð málsins á fimmtudag, sagði að viðbrögð þeirra yrðu kynnt í dag.