Foreldrar samkynhneigðra barna í Kína hafa óskað eftir því að fá heimsókn frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur þegar þær hjónin fara í opinbera heimsókn til Kína í næstu viku. Jóhanna er sem kunnugt er fyrsti opinberlega samkynhneigði þjóðarleiðtogi heims, en réttindi samkynhneigðra eru takmörkuð í Kína.
Jóhanna mun funda með forseta Kína, Xi Jinping, en hann tók við embætti í nóvember. Kínverski ríkisfjölmiðillinn Xinhua segir frá því að félag aðstandenda hinsegin fólks óski eftir að fá að hitta þær Jónínu í Peking í leiðinni, en óvíst sé hvort þær þekkist boðið.
Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra í Kína segja að slíkur fundur yrði þeim mikil hvatning og innblástur, samkvæmt því sem fram kemur á breska vefnum Pink News. Samkynhneigðir njóta ekki jafnréttis samkvæmt kínverskum lögum, þau mega ekki ganga í hjónaband og sambúð þeirra er ekki viðurkennd.
Í febrúar undirrituðu yfir 100 foreldrar samkynhneigðra Kínverja opið bréf til landsfundar kínverska Alþýðuflokksins og kröfðust jafnréttis börnum sínum til handa. Stuttu áður var lesbísku pari neitað um að ganga í hjónaband.
Líkt og víða um heim hafa Kínverjar þó smám saman orðið frjálslyndari hvað varðar viðurkenningu á tilvist hinsegin fólks. Árið 1997 voru afnumin lög sem skilgreindu samkynhneigð sem glæp og árið 2001 var hætt að skilgreina samkynhneigð sem geðsjúkdóm.
Afstaða stjórnvalda er enn að hundsa málaflokkinn algjörlega og í fjölmiðlum er samkynhneigð enn tabú. Þá meina Kínverjar samkynhneigðum pörum í öðrum löndum að ættleiða kínversk börn.